Innlent

Tilboð langt yfir áætlun

Tvö tilboð bárust vegna endurbóta og viðbyggingar við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað og eru bæði langt yfir kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun vegna verksins nemur rúmum 168 milljónum króna. Annað tilboðið nam tæpum 262 milljónum króna, sem er 55,6 prósentum yfir kostnaðaráætlun, og hitt um 277 milljónum króna, sem er 64 prósentum yfir kostnaðaráætlun. Annað tilboðið var frá tveimur einstaklingum í Kópavogi og hitt frá Viðhaldi fasteigna í Fjarðabyggð. Byggja á 305 fermetra við sjúkrahúsið en jafnframt verður gamla sjúkrahúsið endurinnréttað. Það er alls þrjár hæðir að grunnfleti, samtals rúmir eitt þúsund fermetrar. Í verkinu felst meðal annars að fjarlægja núverandi þak, byggja nýja hæð og þak og nýtt anddyri utan á húsið, auk ýmissa annarra minni viðgerða og breytinga. Áætluð verklok ásamt frágenginni lóð eiga að vera eigi síðar en 1. apríl 2006. Að sögn Einars Rafns Haraldssonar, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands, munu málin væntanlega skýrast næstu daga en hann segir það ljóst að tilboðin sem eru aðaltilboð og frávikstilboð rúmist ekki innan þeirrar fjármögnunar sem fyrirhuguð var. Málið fer því aftur til ráðuneytis heilbrigðismála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×