Innlent

Óðu djúpt til bjargar kindum

Bændur á Ströndum og björgunarsveitarmenn frá Drangsnesi óðu allt upp undir hendur í Bjarnarfjarðará í gærkvöldi, til að bjarga fé úr hólma sem var óðum að fara í kaf. Áin hafði breyst í beljandi fljót á svipstundu. Rúmlega 50 kindur voru á beit á svæðinu þegar bændur sáu ánna skyndilega vaxa og kölluðu þeir þá strax á bjrögunarsvitarmenn, þar sem sýnt þótti að í óefni stefndi. Síðan hélt leiðangur tíu manna út í flóðið til kindanna. Nokkrar voru dregnar útí og hinar reknar á eftir. Þurftu þær af og til að taka sundið og björgunarmenn að vaða djúpt, en allt gekk vel upp á næsta þurrlendi, sem er hálendara en hið fyrra. Þaðan var hinsvegar ekki talið hættandi á að vaða með féð alveg í land, svo það hafðist við þar í nótt en nú er flóðið í rénun og allt að komast í samt lag. Erna Arngrímsdóttir húsfreyja að Baldurshaga, sem er fædd þar og uppalinn og hefur búið þar alla sína tíð, man ekki svo skyndilegt og mikið flóð í ánni áður. Fé hefur þó drepist í ánni, en við allt aðrar aðstæður, eða í krapahlaupi, en engin krapi var í ánni í gærkvöldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×