Menning

Mósaík fyrir byrjendur

Miðstöð símenntunar í Hafnarfirði reynir að brydda upp á skemmtilegum nýjungum á hverri önn og í haust verður boðið upp á nýtt námskeið í mósaík. Það er Alice Olivia Clarke sem leiðbeinir á námskeiðinu en hún er kanadísk mósaíklistakona sem hefur verið búsett á Íslandi í 11 ár og gert mörg stór mósaíkverk, meðal annars á veitingastaðnum Vegamótum og nú nýlega afhenti hún stórt listaverk sem prýðir nýja bókasafnið í Hafnarfirði. "Eftir að hafa unnið svona stór verk þar sem ég þarf að vera mjög nákvæm og öguð langar mig að leika mér svolítið," segir Alice. "Ég ætla að hafa námskeiðið létt og skemmtilegt og vona að ég fái sem flesta með mér. Ég hef oft verið spurð hvenær ég ætli að halda námskeið og nú þegar ég er komin með aðstöðu er bara að slá til. Við munum búa til spegla og fólk fær leiðsögn um hvernig á að nota verkfærin og efnið og hvernig maður ber sig að við skurðinn. Ef vel gengur verð ég örugglega með framhaldsnámskeið," segir Alice, og bendir á heimasíðu sína sem er www.aok.is. Mósaíknámskeiðið hefst 27. september og hægt er að skrá sig hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×