Innlent

Játar að hafa framið vopnað rán

Tæplega þrítugur maður játaði að hafa rænt Landsbankann við Gullinbrú með öxi að vopni 21. maí síðastliðinn, þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í maí vegna almannahagsmuna en hefur verið í lausagæslu síðan rannsókn málsins lauk. Tveir aðrir menn, 26 og 20 ára, eru ákærðir fyrir ránið. Í ákæru segir að mennirnir hafi allir farið saman í bíl, sem einn þeirra hafði til umráða, í nágrenni við bankann. Þar fór sá sem setið hefur í gæsluvarðhaldi út úr bílnum með öxi en hinir tveir biðu í bílnum. Hann huldi andlit sitt með lambhúshettu, fór inn í bankann og braut skilrúm úr gleri á einni gjaldkerastúkunni með öxinni. Síðan hrifsaði hann 570 þúsund krónur úr peningaskúffu og hafði á brott með sér úr bankanum. Hann kastaði peningunum inn um glugga á bílnum sem hann kom í ásamt félögum sínum og óku félagar hans á brott með ránsfenginn. Sjálfur var maðurinn handtekinn skömmu síðar. Sá sem beið í bílnum ásamt ökumanni neitar að eiga þátt í ráninu, segist aðeins hafa verið farþegi. Ökumaður bílsins var ekki viðstaddur þingfestinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×