Innlent

Undrast vinnubrögð tollayfirvalda

Móðir sextán ára gamallar stúlku undrast mjög vinnubrögð tollayfirvalda í Leifsstöð. Stúlkan, sem var að koma með flugi frá Stansted-flugvelli í London á miðvikudagskvöldið, gleymdi svörtum Adidas-bakpoka með verðmætum í á færibandinu í tollinum. Þegar stúlkan uppgötvaði það var strax haft samband við tollinn en þar fengust þau svör að bakpokinn hefði verið afhentur manneskju sem hefði sagst þekkja eigandann. Stúlkan var að koma úr ferð með Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og segir móðirin að búið sé að hafa samband við alla sem voru í ferðinni en enginn kannist við að hafa tekið bakpokann. Hún segir ótrúlegt að tollverðir skuli hafa afhent ókunnum manni bakpoka án þess að grennslast nánar fyrir um málið. Hún hafi oftar en einu sinni óskað eftir svörum en ekkert sé hægt að gera. Hún segist hafa spurt hvort ekki væri hægt að bera kennsl á manninum úr myndavél í tollhliðinu. Hún hafi fengið þau svör að það sé ekki hægt þar sem engin myndavél sé til staðar í hliðinu. Móðirin segir að í bakpokanum hafi verið stafræn myndavél, farsími, geislaspilari, skólabækur og vegabréf. Tjónið sé því tilfinnanlegt. Hún biður þann sem kannast við að hafa tekið pokann um að senda sér tölvupóst. Netfangið er: hennysg@internet.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×