Innlent

Neysla erlendra ferðamanna eykst

Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum fyrstu sex mánuði ársins hafa aukist um milljarð frá því á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu. Tekjurnar fyrri helming þessa árs námu tæpum 15 milljörðum króna. Af þeim voru um 5,5 milljarðar í fargjaldatekjur en restin vegna kaupa ferðamanna á vörum og þjónustu í landinu. Fargjaldatekjur voru álíka og í fyrra og var aukningin því nær eingöngu vegna neyslu ferðamanna eftir að til landsins var komið. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa vel ríflega tvöfaldast á undanförnum áratug. Þær voru tæpir 16 milljarðar 1993 en rúmir 37 milljarðar í fyrra. Fargjaldatekjur jukust úr tæpum 6 milljörðum í tæpa 13 milljarða á tímabilinu og tekjur vegna neyslu úr tæpum tíu milljörðum í um 24,5 milljarða. Á síðasta ári komu í fyrsta sinn fleiri en 300 þúsund erlendir ferðamenn til landsins og hefur þeim fjölgað um 124 þúsund frá því fyrir sex árum. Á milli áranna 2002 og 2003 fjölgaði ferðamönnum um tæp 40 þúsund. Hver ferðamaður sem kom til landsins í fyrra eyddi að meðaltali um 120 þúsund krónum. Af þeim fóru rúm 40 þúsund í fargjöld og tæp 80 þúsund í neyslu. Árið 1997 var meðaltalseyðslan sú sama en skiptingin öðruvísi. Flugfarið var dýrara, kostaði tæpar 55 þúsund krónur að meðaltali, og varði hver ferðamaður rúmum 65 þúsund krónum í vöru og þjónustu. Neyslan hefur því aukist um 15 þúsund krónur á ferðamann að meðaltali á síðustu sex árum en flugfarið er að sama skapi 15 þúsund krónum ódýrara en áður var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×