Innlent

Málum fjölgar hjá Jafnréttisstofu

Árið 2003 var viðburðaríkt hjá Jafnréttisstofu samkvæmt ársskýrslu stofnunarinnar. Um mitt árið hætti Valgerður H. Bjarnadóttir sem framkvæmdastjóri og við starfinu tók tímabundið Ingibjörg Broddadóttir, deildastjóri í félagsmálaráðuneytinu. Frá og með 1. nóvember var Margrét María Sigurðardóttir ráðin til starfans. Fram kemur í skýrslunni að þessar breytingar hafi haft mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Þrátt fyrir það fjölgaði beinum og óbeinum erindum sem henni bárust. Talið er að aukin umræða um jafnréttismál, meðal annars hjá Femínistafélagi Íslands og í kringum alþingiskosningar, hafi leitt til fjölgunar erinda sem stofnuninni bárust. Einstaklingar voru áberandi í þeim málum sem stofunni bárust í fyrra, en auk þeirra geta félög, fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld vísað málum til Jafnréttisstofu. Sem fyrr leituðu mun fleiri konur en karlar eftir ráðgjöf hjá stofnuninni, bæði vegna almennra erinda og meintrar mismununar. Þá kemur fram í skýrslunni að starfsfólk Jafnréttisstofu hafi áhyggjur af ýmsum sviðum jafnréttisbáráttunnar. T.d. launamuni kynjanna, skiptingu ábyrgðar innan fjölskyldna, málefnum feðra og ofbeldi gegn konum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×