Innlent

Nýjar aðferðir við greiningu riðu

Yfirdýralæknisembættið tekur í næsta mánuði upp nýjar aðferðir í baráttunni við sauðfjárriðu. Beitt verður nýrri aðferð við sýnatöku í sláturhúsi og sýnin send fyrst í stað til útlanda til frekari greiningar. Á næsta ári er svo vonast til að sinna megi greiningunni hér heima líka. Sigurður Sigurðarson, sérfræðingur yfirdýralæknisembættisins í sauðfjársjúkdómum, segir að með nýju aðferðinni verði hægt að grípa fyrr inn í og hindra frekara smit, því greina megi sjúkdóminn fyrr, jafnvel löngu áður en einkenni koma fram. Ekki er búið að ákveða hvert sýnin verða send, en verið er að leita tilboða í greininguna. Sigurður segir erftitt að fullyrða um hvort kostnaðarauki fylgi nýju aðferðinni, en héraðsdýralæknar taka mörg þúsund sýni í sláturhúsum og þurfa að tileinka sér nýtt vinnulag sem felst í að taka bæði mænukólf og hluta af litla heila skepnanna. Nýja tæknin er sögð bæði fljótvirkari og nákvæmari en fyrri aðferðir. "Í Noregi, Svíþjóð og fleiri löndum hafa fundist ný afbrigði riðusmitefnisins, sem virðast minna smitandi, en þetta próf tekur hvort tveggja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×