Innlent

Vélarvana við Meðallandsbugt

Færeyskur línubátur varð að miklu leiti vélarvana í gær við Meðallandsbugt eða um tíu sjómílur suður af Meðallandsfjörum. Annar færeyskur bátur fór á staðinn til aðstoðar. Ætlunin var að taka bátinn í tog og draga hann til Vestmannaeyja. Fjórtán manns eru í áhöfn bátsins sem er 560 brúttótonn. Landhelgisgæslan var ekki í viðbragðsstöðu vegna þessa en fylgdist vel með gangi mála. Um klukkan níu í gærkvöldi var vindhraði þar sem báturinn var staddur fimmtán til átján metrar á sekúndu. Á tíunda tímanum í gær var báturinn sem kom til aðstoðar kominn að vélarvana bátnum og átti þá eftir að koma taug á milli bátanna. Síðan var talið að það tæki um tíu til tólf tíma að draga bátinn til Vestmannaeyja. Veðurspá fyrir svæðið var slæm þegar blaðið fór í prentun í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×