Innlent

Áhugi á álþéttaverksmiðju

Evrópskt fyrirtæki hefur óskað eftir viðræðum við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar um byggingu álþéttaverksmiðju á Akureyri. "Við teljum að þetta gæti verið áhugaverður samstarfsaðili," segir Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, en evrópskt fyrirtæki hefur óskað eftir viðræðum við félagið um byggingu álþéttaverksmiðju á Akureyri. Atvinnuþróunarfélagið átti áður í viðræðum við japanskt fyrirtæki um byggingu slíkrar verksmiðju. "Við getum því farið hratt af stað í þessar viðræður," segir Magnús. Hann vill ekki upplýsa að svo stöddu um hvaða fyrirtæki er að ræða. Hann kveðst bjartsýnn og segir til mikils að vinna fyrir Akureyri. "Ég held að þetta sé iðnaður sem passar okkar svæði afar vel. Hann er frekar orkufrekur og þarf mikið af hreinu vatni. Auk þess þarf í þetta menntað og hæft starfsfólk." Aðspurður segir Magnús að mengun sem stafi frá álþéttiverksmiðju sé ekki mikil. Hins vegar þyrfti að öllum líkindum að virkja sérstaklega. Ljóst er að hugmyndir um orkufrekan iðnað víða á landinu hafa fengið byr undir báða vængi undanfarið. Magnús segir norðanmenn ekki hafa gefið hugmyndir um álver fyrir norðan upp á bátinn. "Ég verð var við mikinn áhuga á því að reisa álver á Norðurlandi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×