Innlent

Fjórar athugasemdir komnar

Fjórar athugasemdir hafa borist bæjaryfirvöldum á Seltjarnarnesi vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi og nýs deiliskipulags við Hrólfsskálamel og Suðurströnd. Frestur til að skila athugasemdum rennur út í byrjun september. Við Suðurströnd á að byggja blokkir þar sem nú er íþróttavöllur og hefur það mætt nokkurri andstöðu. Bærinn telur hins vegar að fjölgun íbúða í fjölbýli sé nauðsynleg til að halda í horfinu í íbúafjölda. Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri vísar í þeim efnum til svæðaskipulags höfðuborgarsvæðisins þar sem kveðið er á um fjölgun íbúða og til lýðfræðiathugunar sem ráðgjafarfyrirtæki vann fyrir bæinn. Hann bendir á að á Seltjarnarnesi búi um 30 prósent bæjarbúa í fjölbýli og segir eftirspurn eftir slíku húsnæði. "Þannig að ég sé ekki að þetta ætti að breyta eðli byggðarinnar," segir hann. Jónmundur segist jafnframt stoltur af því hvernig bærinn hefur staðið að kynningu á breytingunum. "Því hefur verið lýst yfir af þar til bærum aðilum sennilega sé einsdæmi meðal sveitarfélaga hversu vel hefur verið staðið að málum," segir hann, en ítarlegum kynningarbæklingi með geisladiski var dreift á öll heimili í bænum. "Auk lögbundinnar kynningar höfum við lagt okkur fram um að fá fólk til að kynna sér málið og taka til þess afstöðu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×