Innlent

Ræðir Svalbarðadeiluna

Halldór Ásgrímsson mun ræða Svalbarðadeiluna við utanríkisráðherra Noregs á ráðherrafundi sem nú er að hefjast í Litháen. Ekki er talin mikil von um árangur af viðræðunum. Þótt enginn fáist til þess að segja það opinberlega, eru margir þeirra sem fréttastofan hefur rætt við, sammála um að Íslendingar hafi lagt niður skottið, í Svalbarðadeilunni, þegar íslensku síldveiðiskipin hlýddu fyrirmælum Norðmanna um að hætta veiðum. Höfðu þó verið gefnar digurbarkalegar yfirlýsingar um að Norðmenn ættu ekkert með að reka skipin á brott. Sú skýring að síldin hafi hvort eð er verið á leiðinni út úr Svalbarðalögsögunni, er sögð vera tómt yfirvarp. Íslensk stjórnvöld hafa sagt að þau muni fara með málið fyrir alþjóðadómstól, en þó verði gerð lokatilraun til þess að ná sáttum við Norðmenn. Fundurinn sem Halldór Ásgrímsson sækir nú í Litháen, er samráðsfundur utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Halldór er því ekki að fara til beinna viðræðna um Svalbarða, en talið víst að deilan verði á dagskrá þegar þeir hittast, hann og Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs. Ekki er búist við að neinar sættir verði á þeim fundi, nema hvað þeir verða líklega sammála um að ræða málið frekar og þá með formlegum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×