Innlent

Graðhestaskyrið liðin tíð

Það er mikill munur á graðhestaskyrinu sem Íslendingar borðuðu fyrir 30 árum og fjölbreyttri, íslenskri matvælaframleiðsu nútímans, segir landbúnaðarráðherra. Samt á íslenskur iðnaður undir högg að sækja, segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Fréttastofan fylgdist með þegar landsátakinu „Veljum íslenskt“ var hleypt af stokkunum í dag. Samtök iðnaðarins, Bændasamtökin og Alþýðusamband Íslands standa að landsátakinu „Veljum íslenskt - og allir vinna“. Almenningur mun helst verða átaksins var í formi auglýsinga og íslenskra daga í ýmsum matvöruverslunum. Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir takmarkið fyrst og fremst að vekja athygli almennings á gildi innlendrar framleiðslu fyrir eigin hag og að það skipti máli að fólk velji íslenskt. Sveinn segir óráðið hversu mikið átakið muni kosta. Hann segir ákveðið að það standi hið minnsta í eitt ár en vonast til að árin verði þrjú. Hann segir nokkuð óvenjulegt að ráðast í þess háttar átak á tímum uppsveiflu í samfélaginu en ástæðan sé sú að innlend frameiðsla og samkeppnisiðnaðurinn eigi yfirleitt undir högg að sækja við slíkar aðstæður. Þá sé gengið hátt og vextir háir að sögn Sveins og samkeppnisgreinarnar finni vissulega fyrir því. Þær þurfi þess vegna á svona átaki að halda.     Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði upphaf þessa átaks vera mikla hátíðarstund og að á síðustu 30 árum hefði mjólkuriðnaðurinn í landinu tekið byltingarkenndum breytingum. Fyrir þremur áratugum hefði hann aðeins verið að framleiða nýmjólk, brauðost og graðhestaskyr. Aðspurður um hvort honum hefði þótt graðhestaskyrið gott sagði Guðni svo vera. Það hefði líka haft góð áhrif á beinin í sér.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×