Innlent

Dáist að orkunýtingu Íslendinga

Hillary Clinton öldungadeildarþingmaður segir að áhersla Íslendinga á hreina og endurnýjanlega orku sé aðdáunarverð. Hún vonast eftir náinni samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á því sviði. Hillary er í sendinefnd bandarískra öldungadeildarþingmanna sem komu í stutta heimsókn hingað til lands, gagngert til þess að kynna sér orkumál, og þá sérstaklega hvernig tekið er á hreinni og endurnýjanlegri orku eins og vetni. Kynningin fór fram í Bláa lóninu þar sem Halldór Ásgrímsson, starfandi forsætisráðherra, bauð til hádegisverðar.  Hillary var hrifin af framtaki Íslendinga og sagði þá hafa nálgast þetta mál af mikilli alvöru. Árangurinn sem þeir hafi náð, þar sem vetnisstrætisvagnar væru komnir á götuna og ákveðin stefna hafi verið mörkuð, væri mjög glæsileg. Hillary sagðist vona að Bandaríkjamenn gætu lært af því sem Íslendingar hefðu gert og leitað nýrra leiða til að hafa samvinnu. Hillary Clinton heldur héðan til Írlands í kvöld ásamt eiginmanni sínum en forsetinn fyrrverandi mun þar kynna nýútkomna ævisögu sína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×