Innlent

Mikil samkeppni á íbúðalánamarkaði

Viðskiptabankarnir eru komnir í mikla samkeppni á íbúðalánamarkaði eftir að KB banki bauð áður óþekkt kjör í gær. Hlutverk Íbúðalánasjóðs verður líklega endurskoðað, haldi þróun á markaðnum áfram í sömu átt, segir forstjóri sjóðsins. Formaður Félags fasteignasala fagnar nýjungunum og segir að Ísland hafi hoppað inn í nútímann. KB-banki kynnti í gær lægri vexti á lánum til íbúðakaupa en Íbúðalánasjóður býður, og fleiri ný kjör. Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir það koma sér á óvart hversu seint bankarnir brguðust við og veltir því upp hvort ekki hefði verið hægt að lækka vexti svona mikið, fyrr. Hann segir það fagnaðarefni ef bankakerfið geti þjónað landsmönnum með þessum hætti. Guðmundur lítur ekki svo á að KB-banki sé kominn í samkeppni við Íbúðalánasjóðs heldur hina bankana. Hann segir að fólk ætti að skoða málin mjög vandlega áður en það tekur ákvörðun og minnir á að Íbúðalánasjóður láni öllum á jafnréttisgrundvelli, óháð búsetu og án sértækra skilyrða. Guðmundur segir Íbúðalánasjóð hafa náð vöxtum niður með sínu starfi að undanförnu og það sýni mikilvægi stofnunarinnar sem hann segist ekki sjá fyrir endalokin á. Ef bankakerfið haldi hins vegar áfram að þróast í þessa átt á næstu árum, þá hljóti stjórnvöld að skoða hlutverk Íbúðalánasjóðs - og ekkert nema gott við því að segja segir Guðmundur. Forstjóri Íbúðalánasjóðs er þó ekki viss um að bankarnir nái stórri sneið af þeirri köku sem lán til fasteignakaupa eru. Björn Þorri Viktorsson formaður Félags fasteignasala, fagnar þeirri stöðu sem upp er komin og segir Ísland hafa nú hoppað inn í nútímann. Hann segir að sambærileg kjör séu farin að bjóðast hér og í nágrannalöndunum og það sé ekkert nema jákvætt að segja um málið. Og viðbrögð viðskiptabankanna og sparisjóða hafa ekki látið á sér standa. SPRON býður sínum helstu viðskiptavinum lán á svipuðum kjörum og KB-banki og einnig Landsbankinn, sem og Íslandsbanki, þar sem vextir verða þó endurskoðaðir á fimm ára fresti. Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanaka, segir það skref, sem stigið hafi verið, stórt og menn séu að veðja á að langtíma verðtryggðir vextir lækki. Líklega megi öllum vera ljóst að lækkun bankanna í dag hefði ekki orðið nema KB-banki hefði stigið skrefið í gær og það sé einfaldlega sú samkeppni sem sé í bankakerfinu að sögn Bjarna. Það sé alltaf einn sem stekkur fram; um síðustu áramót hafi það verið Íslandsbanki, núna KB banki og kannski verði það einhver annar næst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×