Innlent

Borgin beggja vegna borðsins

Fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar er meðal fyrirtækja sem bjóða í gámaleigu, flutning og losun fyrir þrjár endurvinnslustöðvar Sorpu en tilboðin verða kynnt í dag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á Vélamiðstöðin ehf. lægsta tilboð í verkið fyrir eina af endurvinnslustöðvunum. Vélamiðstöðin ehf. hét áður Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar en var breytt í einkahlutafélag árið 2002. Stofnendur félagsins og núverandi eigendur eru Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavíkurborg, en Orkuveitan er að langstærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg er ennfremur stærsti í eigandinn í Sorpu sem er byggðasamlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sú staða er því uppi að fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar býður í verkefni sem Reykjavíkurborg er langstærsti aðilinn að í gegnum eign sína í Sorpu. Gámaþjónustan hf. er einn þeirra aðila sem buðu í rekstur endurvinnslustöðva Sorpu. Í bréfi til stjórnarmanna í Sorpu spyr Elías Ólafsson, stjórnarformaður Gámaþjónustunnar, hvort það geti talist eðlilegt að aðili í eigu Reykjavíkurborgar bjóði í verk á vegum Sorpu á móti fyrirtækjum á markaðnum. Við breytingu á rekstrarformi Vélamiðstöðvarinnar, sem samþykkt var í borgarráði 10. september 2002, lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun þar sem þeir áréttuðu að nauðsynlegt væri að móta með skýrum hætti "hvort Vélamiðstöðin ehf. skuli keppa um verkefni á almennum markaði," eins og segir í bókuninni. "Við höfum ekki haft nein fyrirmæli um að skoða eigendalista þeirra fyrirtækja sem taka þátt í útboði. Það er annarra en stjórnar Sorpu að fjalla um hvort þetta sé eðlilegt," sagði Ögmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Sorpu í samtali við Fréttablaðið. Tilboð í þjónustu fyrir endurvinnslustöðvar Sorpu verða gerð opinber í dag klukkan 15 og mun stjórn Sorpu fjalla um tilboðin í kjölfarið. borgar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×