Innlent

Fullkomin útsendingargæði

Sjónvarpsstöðvar Íslenska útvarpsfélagsins senda út stafrænt frá 1. nóvember. Það er bylting í sjónvarpsútsendingum á Íslandi, segir Sigurður G. Guðjónsson, útvarpsstjóri félagsins og forstjóri Norðurljósa. Breytingarnar kosti fyrirtækið um 400 milljónir. Framkvæmdastjóri Sjónvarpsmiðstöðvarinnar, segir fullkomin myndgæði helsta mun stafræns sjónvarps frá því sem nú sé. Sigurður segir að með stafrænum sjónvarpsútsendinum bjóðist áskrifendum aðgangur að allt að 46 sjónvarpsrásum miðað við 14 rásum Fjölvarpsins nú. Félagið geti hins vegar sent út allt að 160 sjónvarpsrásir í framtíðinni á Höfuðborgarsvæðinu. Sigurður segir að ráðist hafi verið í breytingarnar þar sem framleiðslu núverandi áskriftakerfis hafi verið hætt: "Fyrir áskriftasjónvarp eins og Stöð 2 er því ekkert um annað að ræða en að fara inn í næstu kynslóð sjónvarps og kaupa nýja afruglara, sendabúnað og afruglarakerfi." Ólafur Már Hreinsson, framkvæmdastjóri Sjónvarpsmiðstöðvarinnar og áhugamaður um starfæna tækni, segir stafrænt sjónvarp þekkt erlendis. "Þetta er í raun það sem hefur verið að gerast annas staðar, eins og á Norðurlöndunum, og í Bretlandi hefur starfæn útsending verið í gangi í nokkur ár." Ólafur segir að ekki þurfi að skipta um sjónvarp því afruglarar nemi útsendinguna. "Tæknin þróast og það er örugglega stutt í að sjónvarp verði líka stafræn sem þýðir enn betri myndgæði. Það eru svo margir á Íslandi sem eru að berjast við drauga og skugga á skjánum sem að verða nú úr sögunni." Sigurður segir 70-75% sjónvarpsheimila ná stafrænu útsendingunum til að byrja með. "Við hefjumst handa á svokölluðu Faxaflóasvæði, frá Akranes að Reykjanesi. Annar áfangi getur ekki hafist fyrr en við fáum leyfi til að fara með stafrænt sjónvarp út fyrir það svæði. Við erum hins vegar tilbúnir að fara til 95% sjónvarpsheimila um leið og Póst- og fjarskiptastofnun leyfir." Sigurður segir 40 þúsund myndlyklum verða skipt út í fyrsta áfanga en nú séu 60 þúsund lyklar í notkun. Áskriftagjald hækki ekki á einstaka stöðvar en með fleiri stöðvum breytist áskriftarmöguleikar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×