Innlent

Bakslag í jafnrétti ásættanlegt

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir bakslag í jafnréttismálum Framsóknarflokksins, við fráhvarf Sivjar Friðleifsdóttur úr stóli umhverfisráðherra, ásættanlegt því það sé tímabundið. "Staða kvenna innan Framsóknarflokksins er góð, það vill svo vel til. Þó að það sé bakslag núna þá er það aðeins tímabundið," segir Valgerður. Hún segir flokkinn hafa staðið frammi fyrir því að ráðherrum hans fækkaði. "Það er ekki rétt að tala um að einhver hafi þurft að víkja einum eða öðrum úr ríkisstjórn. Það er óþolandi að hlusta á þetta svona. Það þurfti einhver að hætta," sagði Valgerður eftir að hafa opnað landsátakið Veljum íslenskt - og allir vinna í húsnæði Mjólkursamsölunnar. Hún var á hraðferð á fund Hillary Clinton. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknar vildi ekki tjá sig um stöðuna í flokknum við sama tækifæri. Mikil ólga og hiti hefur verið innan Framsóknarflokksins eftir að fráhvarf Sivjar þann 15. september var boðað. Halldór Ásgrímsson, komandi forsætisráðherra, hefur ekki í hyggju að snúa ákvörðuninni en hefur tilkynnt að frekari breytingar verði gerðar á ríkisstjórn Framsóknarflokksins á kjörtímabilinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×