Innlent

Málið snýst ekki um jafnrétti

"Þetta snýst ekki um jafnrétti heldur um stuðning við einstaklinga innan þingflokksins. Tillaga Halldórs var gerð út frá því og það hefði verið vantraust á þann ráðherra sem hefði verið látinn standa upp fyrir Siv Friðleifsdóttur," segir Guðjón Ólafur Jónsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, um ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar að Siv víki úr ráðherrastóli þegar umhverfisráðuneytið fer til Sjálfstæðisflokksins 15. september. Á vefsíðunni hrifla.is sagði Guðjón í pistli sem birtist í gær að stuðningsmenn Sivjar og Jónínu Bjartmarz hefðu keppst við að hreyta ónotum í Árna Magnússon félagsmálaráðherra. "Það var vitanlega eingöngu gert til að skaða Árna enda um að ræða framtíðarforystumann flokksins sem margir aðrir vildu líka verða.[...] Síðan hefur það gerst að fáeinir, einkum konur, sem einhvern tímann einhvers staðar hafa orðið fyrir vonbrigðum með eigin framgang í Framsóknarflokknum vitna nú um einhverja meinta þrönga valdaklíku í flokknum sem að því er virðist eigi þar öllu lifandi og dauðu að ráða." Sigrún Magnúsdóttir, varamaður í Landssambandi framsóknarkvenna, segir að ummæli Guðjóns um framsóknarkonur dæmi sig sjálf en þau lýsi lítilsvirðingu í garð kvenna. "Vinnubrögð Guðjóns þegar verið var að mynda kjördæmasamband í Reykjavík voru mjög gerræðisleg og var hlutur kvenna þar afar fátæklegur," segir hún. "Konur í Framsóknarflokknum ætla ekki að láta kúga sig. Við urðum mjög öflugar um það leyti er við stofnuðum landssambandið og fórum hraðbyr innan flokksins. Við þurfum að eflast aftur og veit ég að sá kraftur býr í okkur," segir hún. Sigrún Jónsdóttir, formaður Félags framsóknarmanna í Reykjavík suður, segist vonast til þess að fundur landssambandsins á morgun verði til þess að konur þjappi saman liði. "Við ætlum ekki að gefast upp á flokknum heldur láta heyra í okkur. Það er gífurleg samstaða meðal jafnréttissinnaðra framsóknarmanna, jafnt kvenna sem karla," segir hún. Hún bendir á að í lögum Framsóknarflokksins segi að hvort kyn skuli ekki skipa minna en 40 prósent í nefndum og stjórnum flokksins. "Niðurstaða fundarins verður vonandi sú að konur sameinist í að bjóða fram krafta sína í allar stjórnir innan flokksins og auki þar með hlut sinn. Með því mun konum fjölga í miðstjórn og á flokksþingi og rödd kvenna heyrist betur," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×