Innlent

Hundruðum nemenda vísað frá

Mörg hundruð nemendur fá ekki vist í framhaldsskólum landsins í haust. Þingmaður Vinstri-grænna segir þetta stríða gegn menntastefnu stjórnvalda þar sem kveðið sé á um að fólk sem horfið hafi frá námi í framhaldsskóla fái tækifæri til þess að taka upp þráðinn að nýju. Lengi vel var útlit fyrir að fjöldi nýnema fengi ekki skólavist í framhaldsskólum landsins í haust. Með byggingum sumarhúsa við tvo framhaldsskóla og viðbyggingu við einn til viðbótar tókst þó að leysa þann vanda. Hins vegar hefur nokkur hundruð eldri nemendum verið synjað um skólavist í framhaldsskólum í haust og sú synjun virðist ætla að standa. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna sem á sæti í menntamálanefnd Alþingis, segir ástandið grafalvarlegt og það bitni á þeim sem síst skyldi, eða ungu fólki sem hafi brotna framhaldsskólamenntun. Það er, krökkum sem hafi einhverra hluta vegna hrökklast úr framhaldsskólanámi en langi nú að hefja nám að nýju. Kolbrún segir það skipta verulegu máli að þessi hópur eigi möguleika á því að taka aftur upp þráðinn. Kolbrún segir það algera nýlundu að fólki með brotna framhaldsskólamenntun sé ekki gefið tækifæri til að taka upp þráðinn á nýjan leik og þar með sé verið að breyta menntastefnunni í landinu. Þetta stríði gegn þeirri stefnu sem verið hefur í gildi og er til skjalfest.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×