Innlent

Mannekla í heilsdagsskólum

Sextíu börn í grunnskólum höfuðborgarinnar fá ekki inni í heilsdagsskólum vegna manneklu. Stefnt er að því að leysa málið fyrir mánaðamót. Skólastarf í grunnskólum landsins hófst með formlegum hætti í dag. Fyrir um 1800 börn á höfuðborgarsvæðinu þýðir upphaf skólaárs líka að komið er að leik og starfi á frístundaheimilum Íþrótta-og tómstundaráðs sem starfrækt eru á milli klukkan eitt og fimm á daginn. Á föstudaginn fengu foreldrar 36 barna í Ingunnarskóla bréf þess efnis að börn þeirra fengju ekki vistun á frístundarheimilum að svo stöddu þar sem ekki hefði tekist að manna allar stöður í frístundarheimili skólana. Tólf barnanna 36 eru nú búin að fá vistun en vandinn er ekki bara í Ingunnarskóla því að í frístundarheimili Árbæjarskóla eru enn þrjár stöður ómannaðar. Forsvarsmenn Íþrótta- og tómstundaráðs, sem nú sér alfarið um rekstur frístundaheimilanna, segja hreinlega engar umsóknir hafa borist seinni hluta sumars en nú sé hins vegar að komast hreyfing á málin. Soffía Pálsdóttir, æskulýðsfulltrúi hjá ÍTR, segir að leitað hafi verið eftir starfsfólki víða undanfarnar vikur, m.a á Job.is og vinnumiðlun ungs fólks.   Soffía segir að Íþrótta- og tómstundaráð sé að taka við fjórtán nýjum frístundaheimilum í haust og það taki sinn tíma að læra á nýjar aðstæður og nýja skóla. Gremja þeirra foreldra sem ekki fá vistun fyrir börn sín sé fullkomlega eðlileg, en þeir þurfi ekki að búa lengi við þetta ástand. Marmkiðið sé nefnilega að leysa málið fyrir 1. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×