Innlent

Óvenjumargir ísjakar á Húnaflóa

Óvenjumargir stórir borgarísjakar eru nú komnir inn á Húnaflóa. Veðurstofan varar skip og báta við sjóferðum út af norðvestanverðu landinu. Borgarísjakar sem þessir eru ekki óalgengir á þessum árstíma en þeir virðast þó fleiri og stærri en undanfarin ár. Fimm stórir borgarísjakar eru komnir langt inn á vestanverðan Húnaflóa og sjást vel frá Þverárfjalli. Þá standa tveir jakar á grunni við Hraun á Skaga og brotnar stöðugt úr þeim þannig að brotin reka undan vindi og eru því hættuleg í myrkri, einkum smærri bátum. Að sögn Þórs Jakobssonar hjá Veðurstofu Íslands myndast þessir borgarísjakar þegar skriðjöklar á austurströnd Grænlands bráðna og brotna í sjó fram. Svo virðist því sem meiri bráðnun sé nú í sumar en áður. Jakarnir eru yfirleitt 30 til 40 metra háir og vel sýnilegir. Meiri hætta skapast þegar þeir brotna í smærri einingar og sjást ekki lengur á ratsjá. Hefðbundinn sléttur hafís myndast hins vegar ekki á þessum árstíma, enda myndun íss í hafinu í lágmarki. Myndin sem er frá Húnaflóa er úr myndasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×