Innlent

Bolvíkingar búnir að safna fénu

Bolvíkingar hafa safnað nægu fé fyrir sjónvarpssendi Skjás eins í Bolungarvík en eins og áður hefur verið greint frá þurftu heimamenn að afla 900 þúsund króna, eða helming af kostnaðinum við uppsetningu sendisins, að því er vefur Bæjarins besta greinir frá. „Við vorum vissir um að okkur tækist ætlunarverkið og á föstudag kom í ljós að okkur hafði tekist að safna nægu fé,“ segir Baldur Smári Einarsson, meðlimur áhugahópsins sem stóð fyrir söfnuninni. Ekki var þörf á að leita til bæjaryfirvalda vegna fjársöfnunarinnar. „Tvö fyrirtæki, Olís og Sparisjóður Bolungarvíkur, styrktu okkur myndarlega en eins og við sögðum í upphafi þá var þetta framtak einstaklinga og við ætluðum ekki að leita til bæjarins,“ segir Baldur Smári í samtali við Bæjarins besta. Forsvarsmenn Skjás eins hafa sagt að það taki 3-6 vikur að fá sjónvarpsendinn til landsins og setja hann upp. Bolvíkingar ættu því ef allt gengur að óskum að geta horft á útsendingar frá ensku knattspyrnunni í byrjun október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×