Innlent

Berast með grænmeti og ávöxtum

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, kannast ekki við að nýjar tegundir kóngulóa séu að nema hér land, en nýverið greindi DV frá því að fólk í Grafarvogi hefði rýmt hjá sér hús og látið eitra vegna ókennilegrar svartrar kóngulóar. "Svona er alltaf að berast frá útlöndum með grænmeti og ávöxtum. Það er mjög eðlilegt," segir hann og telur það yfirdrifin viðbrögð að láta eitra vegna svona atburðar. "Sennilega var þetta bara þessi eina kónguló sem borist hefur með vínberjaklasa og málið leyst með því að góma hana." Erling segir að hér á landi séu líka til tegundir svartra kóngulóa og fólk þurfi ekki að láta sér bregða við návist þeirra. "Þarna virtist fólk óttast að um svörtu ekkjuna hafi verið að ræða, en hún er auðþekkt á því að vera svartgljáandi eins og hrafntinna og yfirleitt með mjög áberandi skærrauðan blett á kviðnum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×