Innlent

Halldór kannast ekki við óánægju

"Ég get ekki séð hvernig því verður haldið fram að Framsóknarflokkurinn hafi staðið sig illa hvað þetta varðar," segir Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, vegna þeirrar ólgu sem verið hefur í flokknum vegna þeirrar ákvörðunar að víkja Siv Friðleifsdóttur úr ráðherraembætti þann 15. september. Hann segist enga vitneskju hafa um óánægju innan flokks síns þrátt fyrir fréttir þess efnis undanfarna daga. Fjölmargir innan flokksins hafa opinberlega lýst yfir óánægju sinni. Jafnréttisfulltrúi flokksins hefur lýst því yfir að klofningsframboð komi til greina og formaður Sambands ungra framsóknarmanna segir formanninn hafa kastað stríðshanskanum með ákvörðun sinni. Framsóknarmaðurinn Elsa Björk Friðfinnsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, segir ljóst að séu viðbrögð formannsins á þennan veg sé það enn frekar staðfesting á því að eitthvað sé að innan flokksins. "Ef Halldór viðurkennir ekki vandann er lítil von til að sættir verði eða breytingar gerðar. Mín tilfinning er þó sú að hljóðið í mörgum framsóknarmönnum sé það þungt að þetta hverfi ekkert, ef það er það sem formaðurinn vonar. Ég trúi einfaldlega ekki öðru en hann viti af ástandinu í flokknum enda hafa fregnir af því verið í fjölmiðlum og víðar að undanförnu." Halldór fullyrðir þó að engrar óánægju gæti sér vitandi og undrast fregnir af slíku. "Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð borið hag kvenna fyrir brjósti og lagt mikið upp úr öflugu starfi þeirra. Konur úr flokknum hafa gegnt embætti ráðherra í 16 ár meðan konur samanlagt í öllum öðrum flokkum hafa gegnt þeim starfa í 17 ár. Staðreyndin er líka sú að fjölgun hefur orðið í flokknum undanfarna mánuði og ég get ekki séð hvernig því verður haldið fram að Framsóknarflokkurinn hafi staðið sig illa hvað þetta varðar." albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×