Innlent

Nauðgun skyggði á menningarnótt

"Það alvarlegasta sem gerðist og skyggir á Menningarnótt er nauðgun sem var kærð til lögreglu rétt eftir flugeldasýninguna. Talsverð ölvun var í miðborginni og einhverjir pústrar á milli manna en ekkert af því var alvarlegt," segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, eftir Menningarnótt og skemmtanahaldið sem tók við í framhaldinu. Sautján ára stúlka kærði nauðgun sem var framin í útjaðri miðborgarinnar og rannsakar lögreglan málið. Geir Jón segir 98 bókanir hafa verið í dagbók lögreglu eftir laugardagsnóttina, sem er svipað og á árum áður þegar skemmtistöðunum var öllum lokað á sama tíma. Nú er slíkur fjöldi bókana orðinn sjaldséður eftir að opnunartíma skemmtistaðanna var breytt. Geir Jón segir töluverðan straum hafa verið í fangageymslurnar, sem voru fullnýttar til klukkan níu í gærmorgun. Alls voru 29 settir inn en þeir stoppuðu mislengi við. Geir Jón segir ríflega tíu þúsund manns hafa haldið áfram að skemmta sér eftir að Menningarnótt lauk en fólk hafi almennt verið að fara úr miðborginni á milli klukkan eitt og hálf tvö um nóttina. Hann segir þessa helgi alltaf hafa verið stóra því sumarvinnu skólafólks sé að ljúka og skólarnir að taka við. Um tvo klukkutíma tók að koma fólki úr miðbænum. Að sögn Geirs Jóns voru mun fleiri bílar en áður á Menningarnótt. "Fólk gerði þetta afskaplega myndarlega, tók tillit til allra hluta og gekk það slysalaust. Íslendingar kunna þetta orðið," segir Geir Jón. Bílum var lagt þétt við Sæbrautina alveg upp að Nýherjahúsinu í Borgartúni. Lagt var meðfram Miklubraut að Snorrabraut og við Hringbrautina og á háskólasvæðinu þar sem hægt var að koma bílum fyrir. Mikið eftirlit var með unglingadrykkju og segir Geir Jón að töluvert hafi sést af ölvuðum ungmennum frá sautján til tuttugu ára en slíkt ástand ekki hafi verið áberandi hjá krökkum undir sautján ára aldri. Hann segist ekki vita til þess að hringja hafi þurft í foreldra til að láta þá sækja börnin sín. Örfáum ungmennum hafi verið komið heim á leið í strætó. "Foreldrar virðast hafa passað upp á börnin sín."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×