Innlent

Vilja konu sem þjóðleikhússtjóra

Konur í leikhúsheiminum krefjast þess að kona verði næsti þjóðleikhússtjóri, en mikil spenna er um það hver hlýtur stöðuna. Á annan tug þekktra leikstjóra hyggst sækja um hana, en umsóknarfrestur er til mánaðamóta. Stefán Baldursson lætur af embætti Þjóðleikhússtjóra um áramótin, en nýr leikhússtjóri verður þó valinn mun fyrr. Áður en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra fær umsóknir til umfjöllunar, skal fimm manna Þjóðleikhúsráð veita umsögn, en konur eru nú í fyrsta skipti í meirihluta ráðsins, sem kann að hafa áhrif. Það er nokkuð í takt við almenna umræðu í þjóðfélaginu þessa dagana að spurningin um kynferði þjóðleikhússtjóra verður áberandi. Þegar hafa margar konur úr leikhúsheiminum hvatt menntamálaráðherra til að velja konu í starfið en hvaða áhrif slíkur þrýstingur mun hafa er of snemmt að segja. Þrjár konur eru helst taldar eiga möguleika á að hreppa hnossið. Þetta eru þær Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, Tinna Gunnlaugsdóttir, leikari og forseti Bandalags íslenskra listamanna, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður og leikstjóri. Þær eru allar að undirbúa umsókn um stöðuna, og sömuleiðis Hlín Agnarsdóttir, leikstjóri. Enda þótt Kolbrún sé andstæðingur menntamálaráðherra í pólitík, telja fleiri að stjórnmálin muni heldur auka líkur á að hún fái stöðuna fremur en minnka. Þá má vera ljóst að Kolbrún sæki varla um nema hafa einhverskonar vilyrði um stöðuna. Af körlum er staðfest að Kjartan Ragnarsson hyggst sækja um stöðuna og nýtur hann verulegs stuðnings leikhúsfólks. Þá mun Hilmar Jónsson, leikhússtjóri í Hafnarfirði sækja um, en hann hefur lengi notið velvildar menntamálaráðuneytisins, og gæti notið þess að vera af annarri kynslóð en aðrir umsækjendur. Þá mun Viðar Eggertsson, leikstjóri sem gerði stuttan stans sem leikhússtjóri Borgarleikhússins hér um árið, sækja um. Tveir karlar, sem hafa verið nákomnir menntamálaráðherra um árabil og taldir líklegir kandídatar, eru þeir Baltasar Kormákur, leikari og leikstjóri, og Magnús Ragnarsson, leikari og nú framkvæmdastjóri Skjás eins. Báðir hafa þeir starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en Baltasar snerist reyndar gegn flokksforystunni í fjölmiðlamálinu í sumar. Nú virðist ólíklegt að þeir sæki um stöðuna, enda báðir uppteknir á öðrum vígstöðvum, en verði annar þeirra á meðal umsækjenda má ljóst vera að staðan sé hans. Sama má segja um Július Vífil Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem íhugar að sækja um Þá er talið líklegt að Árni Ibsen, Ragnheiður Skúladóttir, Helga Hjörvar, Jón Viðar Jónsson, Trausti Ólafsson og Haukur Gunnarsson, leikstjóri í Noregi sækist eftir embættinu, þannig að ekki vantar umsækjendur til að velja úr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×