Innlent

98 útköll frá miðnætti

Talið er að um eða yfir 100 þúsund manns hafi verið á menningarhátíð í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi, enn fleiri en í fyrra. Hámarki náði hátíðin með glæsilegri flugeldasýningu við Reykjavíkurhöfn og fagnaði mannfjöldinn ákaft þegar stærstu bomburnar sprungu. Áður höfðu tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens og hljómssveitin Ego lokið veglegum tónleikum á Miðbakka hafnarinnar. Miðað við umfang hátíðarinnar verður ekki annað sagt en að hún hafi farið vel fram í stórum dráttum. Veður var eins og best verður á kosið, heiður himinn og hægur andvari. Miklar umferðarteppur mynduðust á helstu götum í kringum miðborgina þegar allur þessi fjöldi sneri heim á leið um miðnætti, og var algengt að það tæki fólk á aðra klukkustund að komast úr þvögunni. Þá voru strætisvagnar troðfullir og greinilegt að margir fóru eftir ábendingum lögreglu um að nota freka almenningsvagna en einkabíllinn. Þótt hátíðinni hafi formlega lokið klukkan hálf tólf í gærkvöldi var ennþá, á tíunda tímanum í morgun, töluverður hópur fólks í miðborginni og mikill erill hjá lögreglu. Þá var gríðarleg ölvun, einkum eftir miðnætti, en lögregla sinnti 98 útköllum frá miðnætti og til klukkan sjö í morgun, aðallega vegna afleiðingar ölvunar. Alvarlegasta málið, sem komið hefur til kasta lögreglu í nótt, er nauðgunarkæra, en stúlka um tvítugt kærði tvo pilta fyrir nauðgun við Fríkirkjuveg. Piltarnir eru ófundnir en málið er í rannsókn. Þá hefur verið tilkynntur fjöldi líkamsárása, flestar þó minniháttar. Í einu tilviki var maður sleginn með flösku. Fimm manns hafa verið teknir grunaður um ölvun við akstur en lögregla býst við að slíkum málum fjölgi með morgninum þegar menn fara timbraðir að sækja bílana sína eftir skrall næturinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×