Innlent

Góður andi á Menningarnótt

;Ég er búin að þvælast út um allan bæ og hef farið á þá staði þar sem fjöldinn hefur verið þéttastur og ég er hreinlega að rifna úr hamingju. Andinn í bænum er rosalega fínn," sagði Sif Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarnætur, þegar Fréttablaðið ræddi við hana í gærkvöld. Sif segir að jafn mikill fjöldi fólks hafi ekki sést áður strax upp úr hádegi á Menningarnótt. Hún hafi staðið efst í Bankastrætinu um fjögurleytið og horft yfir mannhaf. Allir viðburðir fyrir börnin hafi verið mjög vel sóttir og augljóst sé að Menningarnótt sem fjölskylduhátíð hafi slegið í gegn þetta árið. Um níuleytið í gærkvöld sagði Sif stemninguna vera að breytast, enn hafi verið barnafólk í bænum en svo virtist sem yngstu börnin væru komin í háttinn. "Veðrið hefur verið yndislegt og ég get ekki ímyndað mér hvernig það hefði getað verið betra," sagði Sif í gærkvöldi. Umferð var mjög þung í Reykjavík í gær en hafði í gærkvöld gengið stórslysalaust fyrir sig að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík. Karl Steinar segir umferðina hafa vaxið jafnt og þétt frá hádegi. Margir hafi þó sýnt fyrirhyggju og lagt bílum sínum talsvert frá miðbænum og gengið það sem upp á hafi vantað. Um fjörutíu þúsund manns voru í miðbæ Reykjavíkur að deginum til samkvæmt tölum frá lögreglunni og bættist í þegar líða fór á kvöldið. Karl Steinar var sjálfur meira og minna í miðbænum og sagðist varla hafa séð ölvun á nokkrum manni um daginn, ásýnd mannlífsins hafi því verið mjög góð. Tómlegt var í risinu hjá miðbæjarpresti, á fundarstað týndra barna, en klukkan níu í gærkvöld höfðu aðeins fimm börn komið og beðið eftir foreldrum eða forráðamönnum sínum. Ekkert barnanna þurfti að bíða lengur en í klukkutíma eftir að verða sótt. hrs@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×