Innlent

Björk óvæntur gestur

Mikill mannfjöldi er nú í miðbæ Reykjavíkur þar sem fram fer menningarnótt í níunda sinn. Lögreglan áætlar að allt að 100 þúsund manns verði í bænum í kvöld, líklega fleiri en áður hafa komið saman hérlendis. Dagskrá menningarnætur stendur samfleytt í 12 klukkustundir og er án efa erfiðara að gera upp á milli viðburða en að finna eitthvað við sitt hæfi. Þessi dagur, sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt, er umfram allt fjölskylduhátíð sem nær til allra kynslóða. Í dag var ýmislegt í boði fyrir yngstu börnin, leiktæki, húlahopp og margt fleira, og tónlistin skipaði veigamikinn sess á götum úti. Við Geysishúsið var gestum og gangandi boðið uppá heilgrillað naut og er ekki vitaði til þess að slíkt hafi verið gert áður hérlendis. Um 20 klukkutíma tók að moðelda nautið og smakkaðist það að sögn mjög vel. Í Listasafni Reykjavíkur, þar sem nýjar sýningar opnuðu í dag, bar óvæntan gest að garði, Björk Guðmundsdóttur, sem þangað var komin til troða upp með Einari Erni og félögum. Í næsta sal var svo boðinn óvæntur forsmekkur af því sem koma skal á Danshátíð Reykjavíkur, sem hefst eftir tvær vikur. Lögreglan í Reykjavík er með mikinn viðbúnað vegna hátíðahaldanna. Samkvæmt upplýsingum frá þeim voru öll bílastæði nálægt miðbænum orðin full um miðjan dag og mjög erfitt að komast á bílnum í innsta hring.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×