Innlent

Segja verðkannanir illa unnar

Verðkannanir á skólavörum eru illa unnar og þar með marklausar. Þetta fullyrða eigendur bóka- og ritfangaverslana, sem telja sumar verslanir beita blekkingum til að koma sem best út í verðkönnunum. Í fréttum Bylgjunnar í gær kom fram að Skólavörubúðin hefur sent Samkeppnisstofnun erindi annað árið í röð, þar sem tilteknar stórverslanir á bókamarkaði eru sakaðar um að breyta verði á tilteknum vörum til að blekkja neytendur. Sumar minni verslanir vilja ekki taka þátt í verðkönnunum af þessu tagi, því verið sé að bera saman epli og appelsínur. Hafdís Ólafsdóttir, eigandi Úrvalsfells, segir að í könnununum sé ekki sagt, hvers konar strokleður, stílabækur, eða penna sé verið að bera saman. Hún segir þessar kannanir ekki vel unnar og því vilji hún ekki taka þátt í þeim. Hún leggur áherslu á þjónustu fremur en lægsta verð. Guðmundur Magnason, verslunarstjóri Office 1 vísar því á bug að verslunin beiti óheiðarlegum vinnubrögðum, verðkannanir séu gerðar tilviljunarkennt og útilokað að hafa áhrif á þær. Hann segir menn auðvitað svekkta ef þeir koma illa út úr verðkönnunum. Þeir verði þá hins vegar bara að gera betur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×