Innlent

Öryggismál komin í lag

Vinna við stærsta steypumannvirki Íslandssögunnar, undirstöður Kárahnjúkastíflu, er komin á fullt á ný. Trúnaðarmaður starfsmanna segir öryggismál á svæðinu komin í lag, eftir banaslysið sem varð í mars. Til að komast að vinnusvæðinu við stífluna er eina leiðin að keyra í gegnum um 200 metra löng göng, sem boruð hafa verið eingöngu til að koma bílum og vinnuvélum á staðinn. Þar er verið að steypa undirstöður stíflunnar, svokallaðan távegg, sem á sér enga hliðstæðu hér á landi. Þetta gegnheila steypustykki verður um 120 metra langt, 40 metra hátt og allt að 20 metra þykkt. Í það fer álíka mikil steypa og þarf í ein 400 einbýlishús. Um það bil einn fimmti af verkefnum við gerð Kárahnjúkastíflu er nú lokið. Miklar umræður urðu um öryggismál við Kárahnjúka eftir að banaslys varð þar um miðjan marsmánuð en þá lést ungur maður þegar grjót féll ofan á hann. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við öryggisráðstafanir ofan í gljúfrinu en Oddur Friðriksson, trúnaðarmaður starfsmanna er ánægður með hvernig að öryggismálum hefur verið staðið síðan þá. Verkalýðshreyfingin, eftirlitið og Impregilo starfi nú saman að öryggismálum og nánast engir hnökrar sé á þeim í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×