Innlent

Búist við 100 þúsund manns

Búast má við að hátt í 100 þúsund manns taki þátt í Menningarnótt í Reykjavík, sem haldin er í níunda sinn í dag. Dagskráin hefst klukkan ellefu þegar Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, setur Menningarnótt formlega og ræsir Reykjavíkurmaraþon í Lækjargötu. Metþátttaka er í hlaupinu en um 3.800 manns hafa skráð sig til leiks og reyndar er enn verið að taka við skráningum í skemmtiskokkið. Dixielandsveitin Sparibuxurnar hans afa leika fyrir hlaupara og kyrrsetumenn, Lúðrasveit Vestmannaeyja verður á þaki Hljómskálans og bongótrommur verða barðar við Tjörnina. Á þriðja hundrað listviðburða og uppákoma verða víðsvegar í borginni, en nánari upplýsingar má nálgast meðal annars á heimasíðu borgarinnar, reykjavik.is. Dagskránni lýkur klukkan ellefu í kvöld með því að um 3000 bombum verður skotið upp á flugeldasýningu á miðbakka Reykjavíkurhafnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×