Innlent

Segir Hannes hræddan

Lögmaður aðstandenda Halldórs Laxness telur Hannes Hólmstein Gissurarson vera hræddan við að takast efnislega á við ásakanir á hendur sér um meintan ritstuld. Almenna bókafélagið hefur enn ekki gert útgáfusamning við Hannes um næsta bindi ævisögunnar um nóbelskáldið og óvíst er hvort hann verður gerður. Afkomendur Halldórs Laxness kærðu bókaskrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um nóbelskáldið til Siðanefndar Háskólans. Lögmaður hans krafðist frávísunar en fékk ekki. Þá höfðaði Hannes mál fyrir dómstólum til að hnekkja ákvörðun Siðanefndar. Sú meðferð hefst í næsta mánuði. Siðanefnd ákvað þá að halda áfram umfjöllun sinni, en Hannes krafðist þess að lögbann yrði þá sett á siðanefnd. Það féllst Héraðsdómur á. Það hefur margur orðið ringlaður af minna tilefni en Halldór Backmann, lögmaður afkomenda Laxness, er með skýringu á þessum lagaflækjum. Hann segir að of mikilli orku sé eytt í formlegar hliðar málsins. Það láti nærri að það sé einhverjum erfiðleikum bundið hjá gagnaðilum að verjast efnislega þeim ásökunum sem komið hafi fram af hálfu ýmissa aðila undanfarna mánuði. Halldór segir að málaferli gegn Hannesi fyrir ritstuld séu enn fyrirhuguð, en að undirbúningur og gagnaöflun hafi reynst mun tímafrekari en talið var í upphafi, og verður málið lagt fyrir dómstóla í haust. Almenna bókafélagið sem gaf út fyrsta bindi Hannesar um Halldór hefur enn ekki gert útgáfusamning um næsta bindi. Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri Almenna bókafélagsins, segir að enn hafi ekki verið ákveðið hvort sá samningur verði gerður við Hannes, en að það skýrist á næstu vikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×