Innlent

Ákæra gegn boxurum tekin fyrir

Ákæra gegn tveimur fyrrverandi landsliðsmönnum í hnefaleikum var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Mennirnir reyndu að smygla rúmlega 300 grömmum af kókaíni til landsins í lok síðasta árs. Annar mannanna er fluttur úr landi, en verjandi hans segir hann ekki á flótta undan réttvísinni. Einungis annar mannanna var viðstaddur fyrirtökuna í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Hinn flutti til Spánar í vor og hefur ekki enn tekist að birta honum ákæruna. Mennirnir smygluðu 325 grömmum af kókaíni til landsins í lok síðasta árs, megninu af því innvortis. Þessi smygltilraun vakti meiri athygli en margar aðrar þar sem mennirnir hafa verið í framvarðasveit íslenskra hnefaleikamanna og eins hafa þeir verið í forsvari fyrir Samtök gegn sjálfsvígum. Verjandi þess sem fluttur er til Spánar segir skjólstæðing sinn ekki vera að flýja undan réttvísinni. Hann starfi og búi á Spáni en muni vera staddur hér á landi í næsta mánuði. Þá muni hann mæta örlögum sínum fyrir dómi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×