Innlent

Menningarnótt hefst á morgun

Menningarnótt er fyrir löngu orðinn einn vinsælasti viðburður ársins. Hátt í 100 þúsund manns hafa lagt leið sína í miðbæinn þennan dag, og má segja að um nokkurskonar fjölskyldkarnival sé að ræða frá morgni til kvölds. Dagskráin hefst klukkan ellefu þegar Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar Reykjavíkur setur menningarnótt formlega og ræsir Reykjavíkurmaraþon. Dixielandsveitin Sparibuxurnar hans afa leika fyrir hlaupara og kyrrsetumenn. Síðan rekur hver viðburðurinn annan og er vissara að skoða dagskrána vel og kortleggja daginn. Mjög auðvelt er að skoða dagskrá Menningarnætur á vefnum, en þar er svokallað gagnvirt kort af viðburðum dagsins. Fyrst má sjá helstu stórviðburði og staði, en síðan má velja ákveðna flokka og birtast þá allir viðburðir undir viðkomandi flokki, sem hægt er skoða sérstaklega, svo sem myndlist, dans, tónlist, og svo framvegis. Dagskránni lýkur svo með því að um 3000 bombum verður skotið upp í risavaxinni flugeldasýningu í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Flugeldasýningin vekur ávallt mikla athygli, en skipuleggjendur segja hana enn tilkomumeiri í ár en áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×