Innlent

Skemmtiferð á línuskautum

Nokkrir frumkvöðlar hafa ákveðið að skipuleggja skemmtiferð á línuskautum á sama tíma og Reykjavíkurmaraþonið fer fram næstkomandi laugardag. Þetta kemur í kjölfar þess að skipuleggjendur Reykjavíkurmaraþonsins ákváðu að blása af línuskautahlaupið í ár sem átti að fara fram samhliða maraþoninu líkt og undanfarin ár. Í fréttatilkynningu segir að línuskautahlaupið verði skemmtiferð sem opin verði öllum og þátttaka ókeypis. Tilgangur þessa uppátækis sé fyrst og fremst að veita línuskautafólki tækifæri á að renna sér á degi menningarnætur en einnig megi líta á þetta sem jákvæða áskorun til aðstandanda Reykjavíkurmaraþons um að gleyma ekki línuskautafólki aftur á degi menningarnætur og bjóða uppá línuskautahlaup samhliða Reykjavíkurmaraþoni í framtíðinni. Farið verður frá Sundlaug Seltjarnaness að Árbæjarlauginni eftir göngustígakerfi borgarinnar, meðfram Ægissíðu, um Fossvogsdal og Elliðaárdal. Þeir duglegu geta síðan rennt sér aftur til baka. Samkomulag hefur náðst við forsvarsmenn beggja sundlauganna um að veita þátttakendum í þessari línuskautaferð ókeypis í sund á eftir (gegn því að koma á línuskautum í þessar sundlaugar frá kl. 11:30-14:00). Ekki er um keppni að ræða heldur getur öll fjölskyldan rennt sér saman og haft gaman af. Þátttakendur verða ræstir af stað klukkan 11.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×