Innlent

Clintonhjónin til Íslands

Bill og Hillary Clinton koma hingað til lands í heimsókn í næstu viku. Þau koma með þingnefnd sem John McCain fer fyrir. Nefnd bandarískra þungavigtarþingmanna er væntanleg hingað til lands á þriðjudaginn kemur. Sendinefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings með formanninn John McCain í fararbroddi á þá stuttan stans hér á landi eftir ferðalag. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar eiga flestir nefndarmanna aðeins stuttan stans í Bláa lóninu til að slaka á eftir strembna reisu, og halda að því loknu heim. Þeirra á meðal eru Joe Lieberman og Susan Collins. Eftir verður hins vegar Hillary Clinton, ásamt eiginmanni sínum, Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Samkvæmt traustum heimildum fréttastofunnar hefur verið skipulögð dagskrá fyrir þau hjón og bandaríska leyniþjónustan hefur þegar gert ráðstafanir til að gæta öryggis þeirra. Mikils taugatitrings gætir vegna komu þingmannanna, og fékkst enginn viðmælenda fréttastofunnar, hvorki hérlendis né vestan hafs, til að staðfesta neitt nema millilendinguna í dag, og sú staðfesting fékkst aðeins með herkjum. Clinton-hjónin munu þó ætla sér að eiga einhverja fundi hér á landi. Öryggisráðstafanir eru sagðar ráða því að lítið sem ekkert er sagt, þar sem betra sé að sem fæstir viti af komu þessara þungavigtarmanna, og á það bæði við aðdáendur og hugsanlega fjandmenn. Óvíst er hversu lengi Clinton-hjónin dveljast hér á landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×