Innlent

Lítil áhrif á síldarvertíðina

Brotthvarf íslenskra skipa af Svalbarðasvæðinu hefur lítil áhrif á síldarvertíðina í ár því síldin er á leið inn í efnahagslögsögu Norðmanna, þar sem þeir sjálfir veiða hana. Markmið þeirra með aðgerðum sínum undanfarið er því ekki að vernda síldarstofninn, segir framkvæmdastjóri LÍÚ. Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir að síldin stefni í suðausturátt, inn í efnahagslögsögu Norðmanna, og því hafi brotthvarf íslensku skipanna af Svalbarða lítil áhrif á það sem eftir er af síldarvertíðinni í ár. Það ráðist fyrst og fremst af veiðum í síldarsmugunni svokölluðu. Aðspurður um þróunina næstu ár ef dómstólaleiðin verði farin, sem spáð er að taki 2-3 ár, segir Friðrik að Norðmenn muni líklega loka svæðiu eins og þeir hafi gert undanfarin ár. Síldveiðiþjóðir hafi síðan gjarnan fari þess á leit við þá að þeir opnuðu svæðið, sem Norðmenn hafi ávallt gert. Friðrik kveðst því ekki hafa trú á því að þeir hafi Svalbarðasvæðið algjörlega lokað næstu árin.   Friðrik finnst mikilvægt að það komi fram að Norðmenn séu ekki að vernda síldarstofninn sem slíkan með þessum aðgerðum sínum því samkvæmt vísindalegri ráðgjöf sem LÍÚ hefur fengið er talið að rétt sé að veiða 825 þúsund tonn. Norðmenn ætli sér einfaldlega að veiða það úr þessum síldarstofni. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×