Innlent

Húsbílaferð um landið

Stærsti húsbílafloti sem farið hefur um Evrópu ferðast nú hringinn í kringum Ísland. Tveir Íslendingar standa að komu húsbílanna eitt hundrað og fjórtán hingað til lands en eigendur þeirra koma úr húsbílaklúbbum víðs vegar af Norðurlöndunum. Það er óhætt að segja að húsbílarnir hafi sett svip sinn á Laugardalinn í veðurblíðunni í morgun enda ekki á hverjum degi sem yfir eitt hundrað húsbílar sjást á ekki stærra svæði. Bílaflotinn kom hingað til lands þann 5. ágúst með Smyril-Line og er ætlunin að fara hringinn í kringum landið á þremur vikum. Hópurinn dvelur á sextán stöðum víðs vegar um landið, yfirleitt einn sólarhring á hverjum stað. Eigendum húsbílanna, sem koma úr húsbílaklúbbum víðs vegar af Norðurlöndunum, var stefnt saman af tveim framkvæmdaglöðum Íslendingum, Sigrúnu og Jóni Gunnari, sem segja Evrópumet slegið með innrás húsbílanna hingað til lands. Þau segja veðurblíðuna undanfarið að sjálfsögðu vera mikinn „bónus“ fyrir ferðalangana en á móti komi að þeir hafi nánast bara haft vertrarfatnað meðferðis. Jón Gunnar segist því hafa sent ferðalangana á útsölurnar í Reykjavík og klæðnaðurinn þess vegna allur að verða léttari.     Ferðalangarnir munu halda stóra veislu í Laugardalnum í kvöld þar sem þeir hitta fyrir félaga í Félagi húsbílaeigenda og boðið verður upp á grillkjöt og harmonikkutónlist. Myndin er úr myndasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×