Innlent

Fjölmörg atriði á Menningarnótt

Heilgrillað naut, tilfinningaþrungið torg og bongótrommu-maraþon er meðal fjölmargra atriða sem boðið verður upp á á menningarnótt eftir rúma viku. Stjórn menningarnætur var í sumarskapi þegar hún bauð til blaðamannafundar í blíðviðrinu í dag en laugardaginn 21. ágúst verður hátíðin haldin hátíðleg í níunda skipti. Boðið verður upp á um 200 atriði og dagskráin því mjög viðamikil. Hægt er að skoða hana á vef Reykjavíkurborgar, Reykjavík.is. Þetta er í fimmta sinn sem Reykjavíkurmaraþon og menningarnótt eru haldin á sama degi. Í þetta sinn munu listamenn spila á bongótrommur og hvetja hlaupara til dáða víða á leiðinni. Meðal þess sem boðið verður upp á er heilgrillað naut við undirleik Smaladrengjanna, Brúarlandsbongó og Tilfinningatorgið sem er verðlaunahugmynd Elísabetar Jökulsdóttur úr hugmyndasamkeppni Landsbankans. Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri menningarnætur, segir að þar eigi fólk að geta tjáð tilfinnningar sínar, hvort sem það ástarjátning, reiðiskast, afbrýðisemiskast eða eitthvað annað. Hátíðin stendur í tólf tíma, eða frá klukkan 11 til 23, en henni líkur líkt og vanalega á flugeldasýningu á Hafnarbakkanum. Talið er að um 100 þúsund manns hafi verið staddir þar í fyrra. Eins og við er að búast gengur umferðin seint á slíkum dögum. Lögreglan segir að mikil töf verði á umferð enda verði margar götur í miðbænum lokaðar. Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hvetur fólk til þess að fara í bæinn með því hugarfari að það verði að leggja bílnum talsvert langt frá, eða einfaldlega nota almenningssamgöngur.  Lögreglan verður þó ekki eingöngu við gæslustörf heldur mun hún einnig taka virkan þátt í hátíðarhöldunum. Lögreglukórinn syngur við lögreglustöðina við Hverfisgötu og boðið verður upp á óvænta uppákomu sem Karl Steinar vill ekki tjá sig um - enda óvænt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×