Innlent

Byggðaþing að Hólum

MYND/Vísir
Byggðaþing verður haldið að Hólum í Hjaltadal í Skagafirði dagana 28. og 29. ágúst næstkomandi á vegum samtakanna Landsbyggðin lifi. Á þinginu halda fyrirlestra fólk víða af landinu um málefni tengd byggð og byggðaþróun. Meðal fyrirlesara eru Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og formaður stjórnar samtakanna, Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar við Hólaskóla. Í tilkynningu segir að Landsbyggðin lifi, LBL, sé hreyfing fólks á Íslandi sem vilji örva og efla byggð um land allt. Áhersla er lögð á að tengja fólk saman og hjálpast að við að mynda sterk heildarsamtök, samstarfsvettvang fyrir einstaklinga og hvers konar óháð áhugamannafélög sem hafa það á stefnuskrá sinni að styrkja og efla heimabyggð sína og stuðla þannig að samstíga þróun byggðamála um land allt, bæði efnahags- og menningarlega. Myndin er frá Hólum í Hjaltadal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×