Innlent

Útvegsmönnum heitinn stuðningur

Ríkisstjórnin heitir útvegsmönnum fullum stuðningi ef þeir halda áfram síldveiðum við Svalbarða í trássi við bann Norðmanna sem tekur gildi um næstu helgi. Ríkisstjórnin telur að Norðmennirnir séu komnir langt út fyrir það sem leyfilegt sé. Í júní í sumar, tilkynntu Norðmenn að leyft yrði að veiða áttatíu þúsund tonn, af síld, við Svalbarða. Þeim áfanga verður náð nú um helgina, og þá ætla Norðmenn að stöðva veiðarnar. Íslenska ríkisstjórnin telur Norðmenn ekki hafa nokkurn rétt til þess að setja þetta bann. Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segir að samkvæmt skilningi íslensku ríkisstjórnarinnar hafi íslensku skipin rétt til þess að veiða áfram á Svalbarða og segir þau hafa pólitískan stuðning sinn. Hann segir að ef skerist í odda muni ríkisstjórnin fylgja því eftir. Útgerðarmenn eru ákveðnir í að halda áfram veiðum við Svalbarða, eftir að bannið gengur í gildi. Á þeim má heyra að þeir hefðu ekkert á móti því að Norðmenn tækju skip og færðu til hafnar, því þá væri hægt að fara með málið fyrir alþjóðlegan dómstól. Þar eru þeir vissir um að Norðmenn myndu tapa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×