Innlent

Hitamet í Reykjavík

Nærri þrjátíu ára hitamet í Reykjavík er að öllum líkindum fallið þar sem hiti er kominn yfir 25 stig. Veðurfræðingar vilja þó ekki staðfesta metið fyrr en eftir mælingar í lok dags. Það má með sanni segja að Ísland sé heitt þessa dagana. Hlýtt loft frá Evrópu og hagstæðar aðstæður valda því að hitamet hafa fallið. Í gær var hitamet fyrir ágústmánuð slegið á landinu. 28 ára met, 27,7 stig sem tilheyrði Akureyringum, féll og færðist suður, en hiti mældist 29,1 stig í Skaftafelli í gær. Gamla metið í Reykjavík er líka 28 ára, en hiti mældist 24,3 stig níunda júlí 1976. Rétt fyrir hádegi var sjálfvirkur mælir við Veðurstofuhúsið á Bústaðavegi kominn í 25 stig, segir Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur. Hann segir þó að beðið verði staðfestingar í kvöld áður en nýtt hitamet verður tilkynnt. Þrátt fyrir nýja sjálfvirka mæla treysta menn enn á gömlu kvikasilfursmælana sem mæla hæsta hitagildi dagsins og af þeim verður lesið klukkan sex í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×