Innlent

Brúin opnuð fyrir starfsmönnum

Búið er að opna brúna yfir Jöklu, sem laskaðist í vatnavöxtum í síðustu viku, fyrir farartækjum verktakanna við Kárahnjúka en ekki almenningi. Steypuvinna við undirstöður Kárahnjúkastíflu hefst væntanlega í dag eftir nokkurra daga hlé.  Búið er að dæla öllu vatni, sem lekið hefur í gegnum varnargarð ofan við stíflustæðið og niður á vinnusvæðið, í burtu. Vinna við gerð aðalstíflunnar var þegar orðin á eftir áætlun þegar vatnavextirnir hófust með öllum sínum truflunum þannig að verkið hefur enn tafist um hátt í viku. Þá er nú lokið vinnu við að hækka varnargarðinn ofan við stíflustæðið, a.m.k. að sinni, og er hann nú orðinn sautján metrum hærri en gert var ráð fyrir að hann þyrfti að vera. Talsvert vatn var í Jöklu síðdegis í gær en yfirborðið var þó fimm metrum lægra en í flóðunum í síðustu viku. Nú laust fyrir hádegið var yfirborðið ívið lægra en á sama tíma þá daga sem flóðin urðu undir kvöld í síðustu viku. Á það er að líta að ekki hafði verið nærri eins hlýtt á jöklinum á næturnar eins og nú þannig að gusa gæti komið í ána þegar líður á daginn og búa menn sig undir það. Veðurstofan spáir áframhaldandi hlýindum og því mikilli bráðnun á jöklasvæðum. Vatnasvæði Jöklu er 3.700 kílómetrar og þar af eru 900 kílómetrar jöklar. Aðeins Jökulsá á Fjöllum, Skaftá og Þjórsá hafa stærri jöklasvæði á vatnasvæðum sínum. Talsvert mikið rennsli er í öllum þeim ám samkvæmt mælingum Orkustofnunar en ekki er þó hægt að tala um flóð í þeim heldur fremur mikið sumarrennsli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×