Innlent

Tekjuskattar verði lækkaðir í okt.

Gunnar Birgisson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert mæla á móti því að tekjuskattar verði lækkaðir strax í október. Hins vegar sé ekki rétt að hækka fjármagnstekjuskatt þar sem fé leiti alltaf skjóls undan áreiti, sama hvort um ræðir fjármagn eða sauðfé. Til að brúa bilið á milli tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts er vænlegra að lækka þann fyrrnefnda en hækka hinn síðarnefnda segir Gunnar Birgisson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem á sæti í efnahags-og viðskiptanefnd Alþingis. Hann er sem kunnugt er mikill talsmaður þess að tekjuskattur verði lækkaður og sagðist ekki ætla að yfirgefa Alþingi í sumar fyrr en skattalækkanir ríkisstjórnarinnar væru komnar í framkvæmd. Aðspurður hvers vegna hann sé þá ekki búinn að tjalda inni í þinghúsinu segir Gunnar að þar hafi ekki verið flófriður í sumar, bæði fyrir þinghaldi og viðgerðum, og ekkert pláss fyrir sig. Gunnar segist vona að tekjuskattur verði lækkaður í haust. Hann segir bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa strengt þess heit að það verði gert og Gunnar hefur ekki trú á öðru en að það standi, ekki síst vegna þess að þetta sé í stjórnarsáttmálanum. Hann segist hafa tekið þetta mál upp á sína arma því hann telji það til mikilla bóta fyrir landsmenn að skattar verði lækkaðir. Gunnar segir að bæði fé, þ.e. fjármunir, og sauðfé leiti sér alltaf skjóls undan áreiti og veðri þannig að ef menn ætli að hækka fjármagnstekjuskattinn, þá fari peningarnir bara annað. Hann vill því frekar lækka tekjuskatt og þá sé allt að fjögurra prósenta lækkun talan sem hann hafi í huga. Gunnar varar mjög við því að tekjuskattur verði hækkaður. Hægt er að hlusta á viðtal við Gunnar úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×