Innlent

Sjúkrabílar fá ekki fulla skoðun

Aðeins ein þeirra fjögurra sjúkrabifreiða sem eru til taks á vinnusvæði ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo sem vinnur að gerð Kárahnjúkavirkjunar hefur fengið fulla skoðun við bifreiðaeftirlit síðan þeir voru keyptir hingað til lands. Vaxandi uggur er meðal starfsmanna vegna þessa þar sem langa leið þarf að fara ef slys eða óhapp ber að höndum og þykir ógnvænlegt að þessi öryggistæki séu ekki í fullkomnu lagi. Um klukkutíma akstur er á Egilsstaði frá Kárahnjúkum og þrátt fyrir að vegir séu að mestu bundnir slitlagi eru slæmir kaflar á leiðinni og því áríðandi að bifreiðar séu vel útbúnar, sérstaklega á veturna. Því er ekki til að heilsa enn sem komið er þrátt fyrir að ár sé liðið síðan viðkomandi sjúkrabifreiðar voru keyptar. Voru þrjár þeirra keyptar notaðar frá Kanada en ein hérlendis. "Þessir bílar sem keyptir voru frá Kanada fengu undanþágur þar sem aðvörunarljós þeirra voru rauð en ekki blá eins og lög kveða á um," segir Páll Sigvaldason, stöðvarstjóri á skoðunarstöð Frumherja í Fellabæ. "Það tók langan tíma að breyta því til hins betra en það er hins vegar rétt að þeir hafa ekki fengið fulla skoðun síðan þeir komu. Það reyndar breyttist í gærmorgun þegar einn bílanna kom í endurskoðun. Hann reyndist í góðu ásigkomulagi og fékk fulla skoðun." Margvíslegar aðfinnslur hafa verið gerðar. Stýrisbúnaður tveggja þeirra sjúkrabíla sem um ræðir er í ólagi en það gerir næsta ómögulegt að aka á miklum hraða þar sem hætta er á að bifreiðin rási stjórnlítið um allan veg. Í einstaka tilfellum skiptir hver mínúta máli ef alvarleg slys ber að höndum og því bráðnauðsynlegt að hægt sé að aka eins hratt og mögulegt er þegar svo ber undir. Að sögn lögreglu er fylgst með því að bifreiðar í eigu Impregilo, sem og annarra aðila sem starfa við Kárahnjúka, fari í skoðun á tilsettum tíma. Ekki er þó klippt af sjúkrabílum nema verulega gangi á enda gegni þeir mikilvægu öryggishlutverki. Enginn gat veitt fullnægjandi svör um hvernig á því stæði að heilt ár gæti liðið án þess að öryggistæki á borð við sjúkrabifreiðar ækju um án skoðunar. albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×