Innlent

Strangari reglur en tíðkast hafa

Öryggiskröfur þess fyrirtækis sem sér um að reisa álver Alcoa í Reyðarfirði eru svo miklar að gengið hefur fram af mörgum þeim starfsmönnum sem þegar hafa hafið þar störf. Hafa þeir flestir langa reynslu af ýmis konar framkvæmdum en fullyrða að aldrei fyrr hafi jafn viðamiklum reglum verið fylgt jafnhart eftir hér á landi. Af ýmsu er að taka þegar starfsmannareglur fyrirtækisins eru skoðaðar. Starfsmönnum er sem dæmi óheimilt að kasta af sér vatni nema á þartilgerðum uppsettum kömrum. Vill oft vera nokkur spölur frá vinnustað að næsta útihúsi en reglurnar eru skýrar. Stranglega bannað er að hafa klámefni af nokkrum toga í starfsmannabúðum og er slíkt brottrekstrarsök ef upp kemst. Starfsmönnum vinnuvéla á svæðinu er gert að hafa alla glugga lokaða á vélum sínum. Þeim er ekki heimilt að vera í stuttermabolum við vinnu og þeim er fyrirmunað að stökkva af vélum sínum við nokkuð tækifæri. Skulu þeir ætíð stíga varlega til jarðar ella eiga á hættu að missa starf sitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×