Innlent

Aðsóknarmet á fiskidegi

Aðsóknarmet var sett á Fiskideginum mikla á Dalvík í dag. Um þrjátíu þúsund manns voru á staðnum og framkvæmdastjórinn segir það aldrei hafa staðið tæpara með að eiga mat ofan í alla. Fiskidagurinn á Dalvík var haldinn í fjórða sinn. Fiskverkendur í Dalvíkurbyggð standa að þessum fjölskyldudegi þar sem boðið er uppá mat og skemmtun, og hvers kyns fiskar eru ekki langt undan. Í fyrra var aðsókn með besta móti og mættu 23 þúsund manns. Um 30 þúsund manns mættu í dag og sem fyrr var veður gott. Á matarhátíð þýðir ekkert annað en að bjóða fólki að borða. Fimmtán matarstöðvar voru á hátíðarsvæðinu við höfnina í Dalvík. Tíu tonn af fiski, þrjátíu þúsund brauð og tveir flutningabílar af drykkjum, rétt dugðu í mannskapinn, segir framkvæmdastjórinn, Júlíus Júlíusson. Einn af föstum liðum Fiskidagsins er fiskasýning Skarphéðins Ásbjörnssonar frá Blönduósi þar sem hann hefur sýnt yfir hundrað tegundir af ferskum fiski. Eflaust eiga yngri gestir Fiskidagsins nóg með að muna nöfn á nokkrum tegundum sem þeir fengu að kynnast í fyrsta sinn á Dalvík í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×