Innlent

Eins konar síldarævintýri

Síld veður nú í yfirborði sjávar víða fyrir norðan land en slíkt hefur ekki gerst áratugum saman. Að sögn Sverris Ólafssonar á trillunni Gyðu Jónsdóttur stekkur síldin í hundruða þúsunda tali upp úr yfirborðinu og lætur sig detta niður á hliðina þannig að til að sjá er eins og sjórinn kraumi. Hljóðið sem berst er líkast því að stórrigning falli á slétt vatn. Síldin er svo gráðug að hún gleypir jafnvel stórkallalega þorskbeituna hjá Sigursveini Þorsteinssyni á Freygerði ÓF. Hann segist ekki hafa séð svona áður. Sigursveinn segir að marglyttur séu einnig út um allt þarna fyrir norðan líkt og í gamla daga. Talið er að þetta sé fremur íslensk sumargotssíld, sem þarna er í ætisleit, en síld úr norsk-íslenska stofninum fræga sem stóð undir síldarævintýrinu svonefnda. Hafrannsóknarstofnun er nú að fá fyrstu sýnin til greiningar. Myndin er úr myndasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×